Þingfundum á Alþingi frestað til 15. janúar

Þingfundum var frestað í kvöld eftir langan fund í dag. …
Þingfundum var frestað í kvöld eftir langan fund í dag. Þing kemur aftur saman 15. janúar. mbl.is/ÞÖK

Þingfundum á Alþingi var í kvöld frestað til 15. janúar. Hafði þá verið samþykktur fjöldi laga, þar á meðal um lækkun á hlutfalli tekjuskatts um 1 prósentu í 22,75%, hækkun barnabóta og persónuafsláttar og lækkun á virðisaukaskatti á matvæli og veitingaþjónustu í 7% frá og með 1. mars. Bæði þessi frumvörp voru samþykkt með atkvæðum allra viðstaddra þingmanna.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði að með þessum skattafrumvörpum hefði verið staðið við öll loforð stjórnarflokkanna um skattalækkanir, sem næmu um 40 milljörðum króna á ársgrundvelli. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði hins vegar skattbyrði hér á landi hefði á þessu kjörtímabili hækkað meira, sem hlutfall af landsframleiðslu, en hjá nokkurri annarri þjóð innan OECD.

Í atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu um virðisaukaskattfrumvarpið voru allar breytingartillögur frá stjórnarandstöðunni felldar, en þær gerðu m.a. ráð fyrir því að veitt yrði auknu fjármagni til verðlagseftirlits á næstu mánuðum og að virðisaukaskattur á lyf yrði lækkaður.

Í frumvarpi um tekjuskatt, sem samþykkt var sem lög í kvöld, er kveðið á um að skatthlutfall lækki um 1 prósentu um áramót en ekki 2 eins og áður hafði verið samþykkt. Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði gegn þessari breytingu, einn þingmanna, og sagði að um væri að ræða skattahækkun. Í frumvarpinu er einnig m.a. kveðið á um að persónuafsláttur hækki á næsta ári úr 356.180 krónum í 385.800 krónur á ári og þýðir það að skattleysismörk einstaklinga hækka úr 79 þúsund krónum í 91 þúsund á mánuði, eða um 14%. Fjárhæð sjómannaafsláttar hækkar um 6%, þ.e. úr 787 krónum í 834 krónur á dag og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta munu hækka um 6%.

Meðal annarra frumvarpa, sem samþykkt voru sem lög í dag, var frumvarp um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

Segja má, að stutt almenn stjórnmálaumræða hafi farið fram, þegar þingmenn tóku til máls í atkvæðagreiðslu um virðisaukaskattfrumvarpið. Þar sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, m.a. að ríkisstjórnin, sem nú sæti, væri mesta hægristjórn og frjálshyggjustjórn í Íslandssögunni. Sæunn Stefánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði hins vegar, að ríkisstjórnin væri velferðarstjórn sem hefði aukið verulega framlög til heilbrigðismála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert