Samgönguráðuneytið, ND á Íslandi ehf. og Neyðarlínan hafa undirritað viljayfirlýsingu um að vinna sameiginlega að því að hérlendis verði unnt að taka upp sjálfvirka hringingu úr bílum í Neyðarlínuna og þróa notkun Saga-hugbúnaðarkerfisins vegna innheimtu veggjalda og eftirlits með hvíldarákvæðum í umferðarlögum.
Undir yfirlýsinguna skrifuðu Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Friðgeir Jónsson, framkvæmdastjóri ND á Íslandi, og Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, segir í tilkynningu frá samgönguráðuneytinu.
Unnið hefur verið að því á vegum Evrópusambandsins undanfarin ár að tekinn verði upp í Evrópulöndum sjálfvirkur búnaður til að gera mögulegt að hringja sjálfvirkt úr bílum í neyðarlínu ef slys verður. Er verkefnið nefnd e-Call eða neyðarhringing. Með slíku símtali myndu viðbragðsaðilum berast strax upplýsingar um staðsetningu slyss. Gæti það flýtt mjög fyrir réttum viðbrögðum, dregið stórlega úr afleiðingum slysa og jafnvel bjargað mannslífum. Evrópusambandið vinnur að því að ríki innan sambandsins skrifi undir viljayfirlýsingu um þátttöku í verkefninu og um leið að fá bílaframleiðendur til að vera við því búna að taka upp viðkomandi tækni eigi síðar en árið 2010. Þegar hafa nokkur lönd skrifað undir viljayfirlýsinguna og ráðgerir samgönguráðherra að undirrita hana í þessari viku.
Í viljayfirlýsingu samgönguráðuneytis, ND á Íslandi og Neyðarlínunnar segir að skilgreina skuli hvað gera þurfi til að koma á svonefndu e-Call verkefni hérlendis í samræmi við viljayfirlýsingu Evrópusambandsins. Eru það meðal annars val og þróun búnaðar, nauðsynlegar prófanir og skilgreiningar.
Þá segir í yfirlýsingunni að aðilar séu sammála um að skipa verkefnastjórn í byrjun næsta árs. Hlutverk hennar sé að setja fram verk- og kostnaðaráætlun um næstu skref og halda undirbúningi áfram í samræmi við viljayfirlýsinguna.