Nöfnin Mosi, Svea, Eybjört og Korka voru nýverið samþykkt sem eiginnöfn af mannanafnanefnd og færð í mannanafnaskrá. Karlmannsnafnið Malm, sem annaðhvort millinafn eða eiginnafn og karlmannsnafnið Aðils voru hinsvegar ekki samþykkt þar sem þau voru ekki talin uppfylla lagaleg skilyrði fyrir skráningu nýrra nafna. Þá var nafnið Kjarrval samþykkt sem sérstakt millinafn, þar sem það hafði áður verið skráð í fjölskyldu úrskurðarbeiðanda, en nafnið verður ekki fært í mannanafnaskrá.
Skráning nafna í mannanafnaskrá er háð vissum skilyrðum sem ekki eru nákvæmlega eins eftir því hvort um eiginnafn eða millinafn er að ræða. Í úrskurði nefndarinnar um nafnið Malm þótti nafnið t.a.m. brjóta í bága við íslenskt mál enda ekki dregið af íslenskum orðstofnum og ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Þá sagði nefndin að ekki væri hefð fyrir nafninu og rithætti þess í málinu, en nöfn öðlast slíka hefð ef ákveðið margir Íslendingar hafa borið nafnið eða ef það hefur öðlast menningarhelgi, t.d. ef það hefur komið fram í alkunnum ritum. Tók nefndin fram að enginn Íslendingur hefði borið nafnið Malm.
Eiginnafninu Aðils var sömuleiðis hafnað og var tekið fram að það væri ættarnafn sem tekið hefði verið upp árið 1917 og að óheimilt væri að samþykkja skráð ættarnöfn sem eiginnöfn í mannanafnaskrá. Þar að auki tæki það ekki íslenska eignarfallsendingu.
Þá tók mannanafnanefnd fyrir beiðni um samþykki á kvenmannsnafninu Gull en taldi nefndin rétt að fresta afgreiðslu málsins til frekari skoðunar og gagnaöflunar.