Ágúst Einarsson ráðinn rektor Háskólans á Bifröst

Háskólinn á Bifröst.
Háskólinn á Bifröst. mbl.is/Þorkell

Dr. Ágúst Einarsson, prófessor við Háskóla Íslands, hefur verið ráðinn rektor Háskólans á Bifröst. Tekur hann við embættinu 15. janúar á næsta ári. Runólfur Ágústsson lét af störfum 1. desember en Bryndís Hlöðversdóttir, aðstoðarrektor, gegnir starfinu tímabundið.

Ágúst segir að sér lítist mjög vel á að hefja störf við skólann og að um mjög spennandi verkefni sé að ræða. Bifröst eigi sér mjög glæsilega sögu, en jafnframt sé bjart framundan. Ágúst segir aðdragandann hafa verið stuttan, leitað hafi verið til hans og að viðræður hafi staðið yfir undanfarna daga.

Segir Ágúst að einhverjar breytingar fylgi auðvitað nýjum rektor, hann vilji efla kennslu og rannsóknir, tengsl við atvinnulífið, auka kennslu fyrir útlendinga og styrkja tengsl við aðra háskóla í landinu. Háskólamenntun sé ekki aðeins mál þeirra sem tengjast háskólum, heldur þjóðarinnar allrar og að hugur sé í þeim sem að skólanum koma um að sækja fram á við og efla skólann.

Ágúst lauk MS prófi í rekstrarhagfræði frá háskólanum í Hamborg í Þýskalandi árið 1975 og doktorsprófi í hagfræði frá háskólanum í Hamborg árið 1978. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri Hraðfrystistöðvarinnar hf. í Reykjavík á árunum 1977-1990 og hefur verið prófessor í rekstrarhagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands frá 1990. Ágúst átti sæti á Alþingi árin 1978-1979 og 1995-1999.

Ágúst hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum í íslensku atvinnulífi. Hann hefur gegnt formennsku í stjórn Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands og viðskiptaskor viðskipta- og hagfræðideildar sem og starfi deildarforseta. Ágúst er höfundur fræðirita á sviði hagfræði og eftir hann liggja ennfremur fjölmargar greinar og ritgerðir í bókum, tímaritum og blöðum um efnahagsmál, hagfræði, menningu, stjórnmál og sjávarútvegsmál. Dr. Ágúst er fæddur árið 1952, sonur hjónanna Einars Sigurðarsonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum og Svövu Ágústsdóttur. Eiginkona hans er Kolbrún Ingólfsdóttir lífeindafræðingur og eiga þau þrjá syni.

Nýkjörna stjórn Háskólans á Bifröst skipa Guðjón Rúnarsson og Finnur Árnason f.h. Samtaka atvinnulífsins, Andrés Magnússon f.h. Hollvinasamtaka, Björg Ágústsdóttir f.h. menntamálaráðherra og Ástráður Haraldsson f.h. háskólaráðs. Guðjón Rúnarsson var á fundi stjórnar í dag kjörinn formaður og Andrés Magnússon varaformaður.

Ágúst Einarsson.
Ágúst Einarsson. mbl.is/ÞÖK
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert