Krefjast tvöföldunar Vesturlandsvegar

Bæjarstjórn Akraness vilja tvöföldun Vesturlandsvegar
Bæjarstjórn Akraness vilja tvöföldun Vesturlandsvegar mbl.is/Júlíus

Bæjarstjórn Akraness samþykkti samhljóða í gær ályktun þar sem skorað er á Alþingi og ríkisstjórn að tryggja nú þegar fjármuni til að tvöfalda þjóðveginn um Kjalarnes og undirbúa stækkun Hvalfjarðarganga í beinu framhaldi af því.

Bæjarstjórn bendir á að umferð um Vesturlandsveg, um Kjalarnes og í Hvalfjarðargöngum hafi aukist um 12-14% á ári undanfarin ár. Þessi aukning sé langt umfram landsmeðaltal og verulega meiri en gerist á öðrum leiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt frétt Skessuhorns.

„Það er í þágu umferðaröryggis allra landsmanna, og í þágu byggðar og atvinnuuppbyggingar á Vesturlandi, að stjórnvöld líti á Sundabraut, tvöföldun á Kjalarnesi og stækkun Hvalfjarðarganga sem eina framkvæmd sem síðan yrði skipt í áfanga. Minna ber á að tvöföldun á Kjalarnesi og stækkun Hvalfjarðarganga er liður í sameiginlegri stefnumótun sveitarfélaga á Vesturlandi í nýlegum vaxtarsamningi við ríkisvaldið. Ennfremur er rétt að rifja upp að slíkar úrbætur í samgöngumálum koma beinlínis við sögu í viljayfirlýsingu ríkisins og tilheyrandi sveitarfélaga í mars 2004 vegna sameiningar fjögurra hafna í Reykjavík og á Vesturlandi í eitt fyrirtæki frá og með ársbyrjun 2005.“ segir orðrétt í ályktun bæjarstjórnar.

Fréttavefurinn Skessuhorn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert