Lúsíuhátíð í Norræna húsinu

Lúsíuhátíð að hætti Svía var haldin í Norræna húsinu í morgun. Madleine Ströje Wilkens, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, bauð gesti velkomna og rakti stuttlega sögu Lúsíuhátíðarinnar. Þegar Lúsíukórinn hafði sungið var boðið upp á lúsíubollur og glögg.

Lúsíutónleikar verða í Grafarvogskirkju í kvöld klukkan 19.

Steinunn Hauksdóttir var Lúsía. Hátíðin er haldin 13. desember og er ein elsta hátíðarhefð Skandinavíu. Hún er haldin í Svíþjóð, sænskumælandi hluta Finnlands og Noregi, og með henni hefst jólahátíðin.

Lúsíusögnin kemur frá Sikiley á Ítalíu þar sem hin upphaflega Lúsía, sem var kristin stúlka, var hálshöggvin 13. desember árið 304 í ofsóknum sem kristið fólk sætti í Rómverska keisaradæminu.

Lúsíuhátíðin barst til Skandinavíu frá Þýskalandi á sextándu öld. Þrettándi desember var stysti dagur ársins samkvæmt júlíanska tímatalinu, og í Skandinavíu varð Lúsía tákn ljóssins og Lúsíuhátíðin að hátíð ljóssins.

Vetrarsólstöður eru 21. desember samkvæmt gregoríanska tímatalinu sem tók við af því júlíanska á fjórtándu öld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert