Öryrkjar verr staddir en áður

Fjöldi fátækra barna á Íslandi, samkvæmt skýrslu forsætisráðherra sem kynnt var á Alþingi í síðustu viku, kemur framkvæmdastjóra Mæðrastyrksnefndar í Reykjavík ekki á óvart. „Ekki miðað við þann fjölda sem kemur hingað til okkar," segir Aðalheiður Frantzdóttir framkvæmdastjóri nefndarinnar. Hún segir að um 2,3 börn séu á framfæri hvers einstaklings sem sæki aðstoð til Mæðrastyrksnefndar á hverju ári.

Í skýrslunni eru ungur aldur foreldra og hjúskaparstaða taldir meðal helstu áhrifaþátta varðandi fátækt og segist Aðalheiður geta tekið undir það. Hins vegar séu aðrir hópar einnig mjög illa staddir. Nefnir hún sérstaklega öryrkja með börn á framfæri. „Síðan er aftur hópur sem virðist vera týndur og enginn talar um, það eru börn frá heimilum þar sem allt er í upplausn út af eiturlyfjaneyslu og öðru. Við finnum heldur betur fyrir þeim hópi."

Þá segir Aðalheiður að þónokkur hópur innflytjenda sæki aðstoð til Mæðrastyrksnefndar.

Aðalheiður segir að aðallega verði börn fátækra foreldra á Íslandi af tómstundaiðkunum hvað lífsgæði varðar. Til bóta væri að taka upp skólabúninga og að öllum börnum yrði gert að vera svipað klædd t.d. í leikfimi. „Þar er eineltið mikið," segir Aðalheiður. "Það er á svo mörgum sviðum hægt að takast á við þetta á auðveldan hátt. Það þarf ekkert að vera opinbert af hverju það er gert."

Spurð um hvort einhver ákveðinn hópur skjólstæðinga Mæðrastyrksnefndar sé verr staddur nú en fyrir áratug er Aðalheiður fljót til svars: „Það eru öryrkjar."

Þá segir hún hóp karla sem búi einir og borgi meðlög með nokkrum börnum og séu í láglaunastörfum fara stækkandi ár frá ári.

Aðalheiður segist telja að jólaúthlutun Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur verði ívið þyngri nú í ár en í fyrra, en úthlutað er í Sætúni 8 í Reykjavík. Áður þarf fólk þó að koma og skrá sig og uppfylla ákveðin skilyrði. Hún segir erfitt fyrir fólk að koma og sækja sér aðstoð og því sé aðeins mjög lítill hópur sem komi sem í raun eigi ekki rétt á aðstoð nefndarinnar.

Skjólstæðingar Mæðrastyrksnefndar eru af öllu landinu að sögn Aðalheiðar.

"Gegnum tíðina hefur Reykjanesbær komið verst út hjá okkur, íbúar þar sækja til okkar töluvert meira en fólk annars staðar að af landinu."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert