Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi hefur verið ráðinn verkefnisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Namibíu til tveggja ára. Hann mun óska eftir leyfi frá borgarstjórn þennan tíma og tekur við starfinu í byrjun nýs árs, að því er fram kemur í tilkynningu.
Stefán Jón hefur áður starfað í Afríku en hann var sendifulltrúi Alþjóðasambands Rauða kross félaga og Rauða kross Íslands í Genf og Afríku nokkrum sinnum á árunum 1985 til 1988.
Stefán Jón var kosinn borgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlista árið 2002 og hefur setið í borgarstjórn frá þeim tíma jafnframt því sem hann hefur verið formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar frá 2001.
Stefán Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund og lagði stund á ensku og bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann er með BA próf í fjölmiðlafræðum frá Polytechnic of Central London og MA próf í boðskiptafræðum frá University of Pennsylvania í Bandaríkjunum. Stefán Jón starfaði sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV 1979 til 1982 og tók síðan við starfi ritstjóra dægurmálaútvarps Rásar og dagskrárstjórn Rásar 2. Hann var nokkrum sinnum sendifulltrúi hjá Rauða krossinum í Genf og í Afríku. Stefán Jón vann að dagskrárgerð fyrir Stöð 2 á árunum 1994 til 1996 en var síðan ritstjóri Dags 1996-1999.
Alls bárust 86 umsóknir um starf verkefnisstjóra í Namibíu.