Haft var eftir Guðfinnu Bjarnadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík, í fréttum Ríkisútvarpsins, að skólinn myndi ekki sitja undir ummælum Björns Inga Hrafnssonar, formanns borgarráðs Reykjavíkur, í Kastljósi Sjónvarpsins í gær.
Björn Ingi spurði Dag B. Eggertsson, fyrrverandi formann skipulagsráðs borgarinnar, hvort hann væri tilbúinn til að leggja fram ráðningarsamning sinn við skólann og hvort að Dagur hefði e.t.v. notið þess í ráðningunni að hafa útvegað háskólanum stærstu lóð sem Reykjavík hefði úthlutað.
Ríkisútvarpið hafði eftir Ingu Dóru Sigfúsdóttur, deildarforseta sem réði Dag, að hún vísaði því á bug að Dagur njóti betri kjara en aðrir. Dagur hafi verið ráðinn vegna þekkingar sinnar og ummælin lýsa vanþekkingu Björns Inga um skólann.