Pólsk stjórnvöld hyggjast opna aðalræðisskrifstofu hér á landi á næsta ári. Þá mun Indland opna sendiráð í Reykjavík á nýju ári og Færeyjar munu stofnsetja ræðisskrifstofu. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er ákvörðun Pólverja einkum til komin vegna mikillar fjölgunar pólskra ríkisborgara hér á landi, en í lok síðasta árs voru Pólverjar með búsetu hér á landi yfir 3.600 talsins.
Áformað er að þrír fastir starfsmenn verði á aðalræðisskrifstofunni. Ísland hefur ekkert sendiráð eða sendiskrifstofu í Póllandi.
Íslenzkt sendiráð hefur hins vegar verið opnað í Nýju-Delí á Indlandi og Indverjar áforma nú að opna sendiráð í Reykjavík á næsta ári. Hversu fjölmennt það verður, liggur ekki fyrir.
Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra tilkynnti í haust að opnuð yrði aðalræðisskrifstofa í Þórshöfn í Færeyjum í haust. Hún er fyrsta aðalræðisskrifstofa erlends ríkis, sem opnuð verður í Færeyjum. Nú hefur færeyska landstjórnin ákveðið að opna ræðisskrifstofu í Reykjavík. Þar verður væntanlega einn starfsmaður.