Íslenskur flugdólgur á leið frá Kúbu skilinn eftir í Halifax

Boeing 737 þota Heimsferða.
Boeing 737 þota Heimsferða. Víkurfréttir

Íslenskur karlmaður sem tók að láta ófriðlega um borð í flugvél Heimsferða á leið til Íslands frá Kúbu í gær var skilinn eftir ásamt konu sinni í Halifax í Kanada, þar sem vélinni var millilent til að taka eldsneyti.

Að sögn annarra farþega í fluginu voru maðurinn og kona hans alldrukkin og vel birg af áfengi í fluginu. Þegar líða tók að millilendingu í Halifax gerðist maðurinn æstur og hóf að sýna flugfreyjum dónaskap og ónáða samferðamenn, sem vildu fá sig flutta í hæfilega fjarlægð frá manninum.

Kona hans reyndi að róa hann, en þá brá svo við að maðurinn barði hana að flugþjónum ásjáandi. Flugstjórinn sem tók við vélinni í Halifax, Peter Gantzholm, þverneitaði að flytja manninn áfram til Íslands og voru hjónin því skilin eftir.

Flugþjónar um borð í vél Heimsferða vildu koma því á framfæri, í samtali við mbl.is, að einungis mætti neyta þess áfengis sem á boðstólum sé í vélunum, en farþegum sé bannað að neyta áfengis sem þeir flytja með sér. Einnig vildu þeir taka fram að framkoma annarra farþega hafi verið með miklum sóma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert