Segir ekki mega rugla saman Götusmiðjunni og Byrginu

Guðmundur Týr Þórarinsson, forstöðumaður Götusmiðjunnar, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann vill árétta að umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kompáss á Stöð 2 í gærkvöldi hafi ekki verið um Götusmiðjuna heldur meinta hegðun forstöðumanns Byrgisins, Guðmundar Jónssonar.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

    Í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringaþáttarins Kompáss í gærkvöldi um ásakanir um meinta hegðun forstöðumanns Byrgisins, Guðmundar Jónssonar, telur Götusmiðjan brýna nauðsyn að leiðrétta þann misskilning að ekki er um Götusmiðjuna að ræða né heldur forstöðumann hennar, Guðmund Tý Þórarinsson.

    Í gegnum tíðina virðist þessum tveim fyrirtækjum, Götusmiðjunni og Byrginu, hafa verið ruglað saman. Tekið skal fram að engin tengsl eru á milli fyrirtækjanna né forstöðumanna þeirra, Guðmundar Jónssonar og Guðmundar Týs Þórarinssonar. Í þessari yfirlýsingu felst engin afstaða undirritaðs um meint brot eða hegðun Guðmundar Jónssonar, forstöðumanns Byrgisins.

    Virðingarfyllst,
    Fyrir hönd Götusmiðjunnar
    Guðmundur Týr Þórarinsson

Í Kompásþættinum var m.a. fullyrt, að Guðmundur Jónsson hefði ítrekað tælt skjólstæðinga sína til kynlífsathafna og var vísað í vitnisburð fjögurra kvenna um þetta. Talað var við Guðmund sem vísaði öllum ásökunum á bug.

forstöðumaður

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert