Tryggingafélag sýknað af kröfu um greiðslu líftryggingar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu um að tryggingafélag greiði líftryggingu, sem karlmaður keypti árið 1995 en maðurinn varð bráðkvaddur á síðasta ári. Dómurinn segir að engum vafa sé undirorpið, að maðurinn hafi ekki gefið réttar upplýsingar um heilsufar sitt þegar hann keypti trygginguna.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn sótti um líftryggingu í septemberlok árið 1995 og svaraði þá m.a. neitandi spurningum á umsóknareyðublaði um hvort hann reykti eða hefði reykt að staðaldri síðustu 12 mánuði og hvort hann hefði fengið hjarta- eða æðasjúkdóma og háan blóðþrýsting.

Eftir að maðurinn lést á síðasta ári neitaði tryggingafélagið að greiða aðstandendum mannsins líftrygginguna og vísaði m.a. í upplýsingar frá læknum um að maðurinn hefði í lok ágúst 1995 fengið kransæðastíflu og verið á lyfjum vegna hennar. Einnig hafi maðurinn verið stórreykingarmaður og reykt um einn og hálfan til tvo pakka af sígarettum á dag en hætt því er hann fékk kransæðastífluna.

Dómurinn segir, að samkvæmt gögnum málsins sé engum vafa undirorpið að maðurinn hafi við töku líftryggingarinnar vísvitandi gefið rangar upplýsingar um atvik sem hann mátti ætla að skiptu máli fyrir vátryggingar­félagið. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna tryggingafélagið af kröfunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert