Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir því að verktakasamningi hans við Faxaflóahafnir verði rift. Óskar segist í yfirlýsingu gera þetta til þess að friður og sátt ríki um það verkefni, sem hann réði sig til að vinna fyrir fyrirtækið, sem var að stuðla að þróun og uppbyggingu Mýrargötusvæðisins.
Yfirlýsing Óskars er eftirfarandi:
Fyrir liggur lögfræðilegt álit um hæfi mitt. Sem iðnrekstrarfræðingur réði ég mig til verksins í þeirri trú að ég gæti sinnt því af eindrægni án þess að það bitnaði á öðrum störfum mínum fyrir Reykjavíkurborg. Almenna reglan er sú að störf í sveitarstjórnum eru álitin aukastörf, ekki síst þegar um er að ræða varamann eins og í mínu tilviki.
Sú gagnrýni sem beinst hefur að mér að undanförnu er ómakleg og af pólitískum rótum sprottin. Hún hefur ekki aðeins skaðað verkefnið heldur fjölskyldu mína. Hún hefur ennfremur varpað skugga tortryggni á starfshætti meirihluta borgarstjórnar.
Það er sannfæring mín að í umræddu verkefni sé ekki um neina hagsmunaárekstra að ræða. Til þess að friður og sátt ríki um verkefnið hef ég ákveðið að óska eftir því að samningi mínum við Faxaflóahafnir verði rift. Ég vænti þess að almenningur í borginni skilji þá ákvörðun mína og virði.