Lögreglan á Akureyri segir, að í ljósi þess að stytt hafi upp og spáð sé kólnandi veðri sé ekki talin sérstök hætta á frekari aurskriðum. Því er þó beint til þeirra, sem búa á þekktum aurskriðusvæðum, að hafa varann á sér. Til öryggis munu björgunarsveitarmenn í Eyjafirði verða á vakt í nótt og á morgun mun lögregla fara ásamt jarðfræðingi á skriðusvæðin og leggja frekara mat á skriðuhættu.
Á tímabili í dag var talið að fólk á bænum Melbrekka í Eyjafjarðarsveit væri komið í sjálfheldu vegna vatnsflaums og í hættu statt. Því var óskað eftir þyrlu frá Landhelgisgæslunni norður. Þegar þyrlan var lögð af stað rénaði vatnselgurinn og leið opnaðist burt fyrir fólkið. Þyrlunni var því snúið við.
Mikið annríki hefur verið hjá lögreglunni á Akureyri síðasta sólarhringinn vegna asahláku og afleiðinga hennar. Á tólfta tímanum í gærkvöldi fóru að berast tilkynningar um að vatn væri farið að flæða upp um niðurföll og niður í kjallara í nokkrum húsum á Akureyri. Vatnselgur myndaðist kringum hús við Grenilund og flæddi vatn í kjallara nokkurra húsa þar. Holræsakerfi hafði ekki undan að taka við vatni með þessum afleiðingum. Var tekið á það ráð að dæla vatni um kílómetra leið frá þessu hverfi og að holræsalögnum sem höfðu undan. Við þetta störfuðu slökkviliðsmenn og verktakar sem kallaðir voru til með dælur. Einnig voru kallaðir til björgunarsveitarmenn og sendibílstjórar til að aðstoða við að ferja verðmæti úr húsunum og í öruggt skjól. Loka þurfti nokkrum götum meðan á þessu stóð. Alls er talið að um 100 manns hafi tekið þátt í björgunarstarfi í nótt þegar mest var.
Vatnsflaumur gróf undan ljósastaur á Hlíðarbraut, sem lagðist við það útaf. Flaumurinn rauf síðan skarð í Hlíðarbraut við brú yfir Glerá, þannig að loka varð götunni.
Kl. 1:49 barst tilkynning um að vatnselgur hefði rofið skarð í Súluveg og var veginum lokað. Vegagerðin hefur gert við vegina til bráðabirgða.
Þá bárust tilkynningar um að vatn hefði einnig runnið í hús við Urðargil, Þingvallastræti og í kjallara Iðnaðarsafnsins. Björgunarsveitarmenn aðstoðuðu við verðmætabjörgun.
Kl. 6:30 var tilkynnt um að aurskriða hefði komið úr fjallinu ofan við bæinn Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit. Skriðan lenti ekki á húsum. 20 mínútum seinna barst tilkynning um að önnur aurskriða hefði fallið á sama stað og nú lent á íbúðarhúsinu og útihúsum. Engin meiðsli urðu á fólki. Í þetta skiptið fór skriðan yfir veginn á allt að 100 metra kafla, að því er talið er. Ábúendur, hjón og einn unglingur, komust á dráttarvél yfir skriðuna og í öruggt skjól á bænum Æsustaðir. Íbúar á bæjum sunnan við Grænuhlíð voru aðvaraðir en skriðusérfræðingur taldi þó ekki miklar líkur á skriðuföllum þar.
Kl. 7:45 var tilkynnt um að aurskriða hefði fallið á veginn norðan við Kolgrímustaði í Eyjafjarðarsveit. Skriðan lokaði veginum en lenti ekki á öðrum mannvirkjum. Þá féll aurskriða á veginn norðan við bæinn Stóradal og yfir veginn þannig að hann varð ófær. Loks bárust upplýsingar um að aurskriða hefði fallið á veginn skammt frá Skriðu í Hörgárdal.
Lögregla lokaði þjóðveginum til suðurs við Saurbæ í Eyjafjarðarsveit. Í birtingu fór lögregla með jarðfræðingi á vettvang skriðufallanna. Við vettvangsathugun kom í ljós að aurskriðan hafði sópað með sér gömlu fjósi í Grænuhlíð og höfðu 16 til 18 geldneyti drepist við það. Aur hafði lent á öðrum útihúsum en skepnum sem þar voru varð ekki meint af. Aur hafði einnig lent á íbúðarhúsinu og farið inn um það. Í samráði við jarðfræðing var ákveðið að opna veginn aftur um kl. 13:30. Vegurinn var ruddur og unnið að hreinsun í íbúðarhúsinu. Til öryggis var ákveðið að ekki yrði mannvist í íbúðarhúsinu í nótt.
Kl. 10:53 brast jarðvegsstífla við uppistöðulón ofan við rafstöð í Djúpadal. Vatn flæddi úr lóninu, yfir virkjunina og áleiðis niður að Eyjafjarðará. Flóðið rauf veginn beggja megin við brú á Eyjafjarðarbraut yfir Djúpadalsá. Einnig rofnaði vegurinn báðum megin við brú sem er yfir Djúpadalsá að bænum Vellir.
Mikill vöxtur var í Eyjafjarðará á þessum tíma og bættist nú enn við þannig að nokkur hross sem voru á mýrum við ánna voru hætt komin. Unnt var að koma þeim til hjálpar og í öryggi.
Þegar vatnið hafði rofið Eyjafjarðarbraut við Djúpadalsá, vildi ekki betur til en svo að vegfarandi á pallbíl ók ofan í rofið og barst með bíl sínum niður ána. Honum tókst að komast út úr bílnum af sjálfsdáðum og á land og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild FSA til aðhlynningar. Honum mun ekki hafa orðið meint af volkinu, að sögn lögreglu.