Um fjögurra til fimm metra skarð er komið í Eyjarfjarðarbraut sitthvoru megin við brúna yfir Djúpadalsá. Stendur brúin eins og eyja í miðju rofinu. Aurskriður féllu við bæinn Stóradal í Djúpadal upp úr klukkan átta í morgun og ollu miklu tjóni á túnum. Segir Heiðrún Árnadóttir, sem býr á Stóradal, að þetta séu einhverjar víðfeðmustu skriður sem þarna hafi fallið þau þrjátíu ár sem hún hefur búið á Stóradal.
Rétt neðan við bæinn var lón Djúpadalsvirkjunar, en það er nú horfið þar sem stíflan í ánni brast. Heiðrún sagði að ef vatnsveður héldi áfram næsta sólarhringinn „veit ég ekki hvort er vogandi að vera hérna“.