Kjararáð hækkar laun um samtals 6,5%

Kjararáð hefur úrskurðað, að laun þeirra, sem ákvörðunarvald kjararáðs nær til skulu hækka um 3,6% frá 1. október 2006 og hinn 1. janúar 2007 skulu þau laun hækka um 2,9%.

Í úrskurðinum er vísað til þess, að um næstu áramót muni laun samkvæmt kjarasamningum yfirleitt hækka um 2,9%. Þetta eigi bæði við um starfsmenn hins opinbera og á almenna markaðinum. Sum félög hafi þó samið um 3 til 3,15% hækkun.

Kjararáð segist í úrskurðinum hafa kannað þróun launa á árinu 2006. Lágmarkshækkun samkvæmt kjarasamningum var 5,5% en af launavísitölum Hagstofu Íslands sjáist, að laun að meðaltali hafi hækkað mun meira, bæði vegna kjarasamninga og launaskriðs. Síðasta birta launavísitala sé fyrir október og hafði hún þá hækkað um 11% næstu tólf mánuði á undan. Á sama tíma hækkuðu laun embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa, sem heyri undir kjararáð um tæplega 5,6%, það er um 2,5% 1. janúar og um 3% 1. júlí samkvæmt úrskurði kjararáðs hinn 4. október sl. Sé þá ekki tekið tillit til ákvörðunar Kjaradóms í desember 2005, sem felld var úr gildi með lögum. Frá desember 2005 til september 2006 hækkaði launavísitala um 9,1%.

Kjararáð segir, að verulegar breytingar hafi orðið á launum í þjóðfélaginu og sé því tilefni nú til endurskoðunar á launum. Rétt sé að hafa í huga, að þau viðmið sem kjararáði sé skylt að gæta, fari ekki öll með sama hraða á sama tíma. Geti kjararáði því verið nauðsyn að fara bil tveggja eða fleiri viðmiða í hverjum einstökum almennum úrskurði sínum. Ákvarðanir kjararáðs, sem leiða af hækkunum sem ekki verði beint lesnar úr kjarasamningum, svo sem hækkanir um launaflokka og launaskrið af öðrum ástæðum, komi ætíð eftirá og stafi af breytingum sem þegar hafa verið gerðar annars staðar. Öðru máli gegni um almennar umsamdar áfangahækkanir. Slíkar hækkanir geti orðið á sama tíma og hjá öðrum launþegum.

„Af þessum sökum og vegna þess hve launahækkanir hafa verið miklar að undanförnu er það niðurstaða kjararáðs að nauðsynlegt sé að launahækkun til þeirra sem undir ráðið heyra verði skipt í tvennt: annars vegar til þess að taka mið af þeim launabreytingum sem orðið hafa á vinnumarkaði fram til septembermánaðar 2006, umfram þá hækkun sem fólst í úrskurði kjararáðs 4. október sl., og hins vegar vegna almennrar launahækkunar sem samið hefur verið um 1. janúar 2007," segir í úrskurðinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert