Mikið vatnsveður og leysingu gerði á Akureyri í gærkvöldi sem varð til þess að vatn flæddi inn í kjallara á þremur parhúsum við Grenilund. Holræsakerfi bæjarins hafði ekki undan og þurfti slökkvilið Akureyrar að leggja tæplega kílómeters lögn af slöngum til að dæla vatni í burtu, segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Mikið tjón varð af vatni í húsunum og voru fjöldi björgunarsveitarmanna, slökkviliðsmanna, lögreglumanna og starfsmenn Akureyrarbæjar ásamt íbúum önnum kafnir í mestalla nótt við björgunarstörf.
Þá grófst Hlíðarbraut í sundur við Glerárbrú en bráðabirgðaviðgerð lauk undir morgun. Súluvegur ofan Akureyrar fór fór einnig í sundur og þá fór vatn inn í kjallara í fleiri húsum án þess að tjón hlytist af. Veður fór að lagast undir morgun og fór þá vatnselgurinn að sjatna en björgunarmenn eru enn að störfum.