Segir launakröfur flugumferðarstjóra óforsvaranlegar

„Flugumferðarstjórar eru með algjörlega óforsvaranlegar kröfur," segir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og tekur fram að hann standi við bakið á stjórn Flugstoða ohf. og telji rétt hjá þeim að ganga ekki að afarkostum flugumferðarstjóra, eins og hann orðar það. „Mér er tjáð að þeir setji fram skyndilega mjög háar launakröfur, allt að 25% hækkun. Þetta setur málin í verulega erfiða stöðu, vegna þess að kjarasamningar eru ekki lausir."

Að mati Sturlu hefur undirbúningurinn að uppskiptingu Flugmálastjórnar gengið afar vel og bendir hann á að ríflega 150 starfsmenn hafi þegar ráðið sig hjá Flugstoðum. "Staðreynd málsins er sú að mikill meirihluti starfsmanna er tilbúinn að ráða sig hjá hlutafélaginu, en flugumferðarstjórar skera sig úr, rétt eina ferðina."

Aðspurður segist Sturla vissulega hafa af því áhyggjur að breyta þurfi þjónustustiginu í íslenskri flughelgi og segir slíkt munu skerða hæfni íslenska flugumferðarkerfisins. Segir Sturla ljóst að komi til þess þurfi að semja við nágrannaþjóðir okkar um að taka að sér að minnsta kosti hluta starfseminnar, að höfðu samráði við Alþjóðaflugmálastofnunina, en Íslendingar eru með samning við þá stofnun um að sinna þessari þjónustu. Spurður hvort honum þyki það ásættanlegt til frambúðar svarar Sturla neitandi. Segir hann afar óheppilegt ef þessi störf fari úr landi ef Íslendingar geti ekki sinnt þeim, störf sem hann minnir á að talsvert hafi þurft að hafa fyrir að fá hingað til lands upphaflega með alþjóðasamningum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert