Ritstjórar Ísafoldar segja landlækni fara með alvarlegar rangfærslur

Reynir Traustason, ritstjóri Ísafoldar.
Reynir Traustason, ritstjóri Ísafoldar. mbl.is/Árni Sæberg

Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, ritstjórar tímaritsins Ísafoldar, segja landlækni fara með alvarlegar rangfærslur í úttekt á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Segir í yfirlýsingu ritstjóranna að þeim dylgjum sem fram koma um ósannsögli og rangfærslur í grein Ísafoldar er algjörlega hafnað og það harmað að embættismaður skuli láta fara frá sér jafnalvarlegar ásakanir. Ísafold mun kanna lagalega stöðu sína í því samhengi.

Yfirlýsing ritstjóra Ísafoldar: alvarlegar rangfærslur landlæknis

„Vegna yfirlýsingar Matthíasar Halldórssonar varðandi umfjöllun tímaritsins Ísafoldar um elliheimilið Grund er nauðsynlegt að fram komi að landlæknir fer með rangt mál í nokkrum tilvikum. Í fyrsta lagi er rangt að því sé haldið fram í grein Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur, Endastöðin, að kona sem beinbrotnaði hafi ekki fengið aðhlynningu fyrr en meira en sólarhring eftir að hún féll fram úr rúmi sínu. Fyrir liggur viðurkenning Grundar á því að konan féll fram úr rúminu eftir að hún gekk til náða og var sett upp í rúm aftur þegar leið á nótt, þrátt fyrir kveinstafi, án þess að hún fengi læknisaðstoð fyrr en daginn eftir. Það hlýtur að teljast furðulegt af landlækni að lýsa því yfir að það hafi engin áhrif á horfur sjúklings að honum var ekki sinnt fyrr en daginn eftir beinbrotið. Í engu er skeytt um sársaukann sem vistmaðurinn þurfti að þola. Það er alrangt að því sé haldið fram að konan hafi legið í „meira en sólarhring". Enginn getur sagt til um það hvort konan var greind 10 eða 20 tímum eftir að hún brotnaði. En það liggur fyrir að hún var ekki greind fyrr en daginn eftir.

Landlæknir fullyrðir að gagnrýnt sé í greininni að „margt starfsfólk af erlendu bergi brotið vinni á deildinni og tungumálaerfiðleikar séu til trafala". Þetta er alrangt því hvergi í greininni er talað um slíkt, einungis það að við komuna inn á Grund spurði Ingibjörg Dögg til vegar og í þrígang urðu útlendingar fyrir svörum. Þetta gerðist ekki á deildinni og var í engu haldið fram.

Landlæknir heldur því fram að hreinlæti sé hvergi ábótavant. Það byggir hann á skyndiskoðun sinni á Grund. Ísafold byggir sína umfjöllun á nokkra daga reynslu.

Landlæknir gerði enga tilraun til að heyra sjónarmið blaðamanns Ísafoldar sem er augljós galli á rannsókn hans og óverjandi vinnubrögð. Þá ræddi hann aðeins við einn aðstandanda af hundruð. Rétt er að benda á að landlæknir hefur eftirlitsskyldu með Grund eins og öðrum dvalar- og elliheimilum.

Tekið skal fram að Ingibjörg Dögg fékk aldrei krónu fyrir vinnu sína á Grund og var því sjálfboðaliði umrædda daga. Stjórn Grundar sá ekki ástæðu til að greiða henni laun og Ingibjörg Dögg gekk ekki eftir greiðslum.

Þeim dylgjum sem fram koma um ósannsögli og rangfærslur í grein Ísafoldar er algjörlega hafnað og það harmað að embættismaður skuli láta fara frá sér jafnalvarlegar ásakanir. Ísafold mun kanna lagalega stöðu sína í því samhengi.

Reykjavík 21. desember 2004

Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Ísafoldar.
Reynir Traustason, ritstjóri Ísafoldar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert