Þeir tæplega 60 flugumferðarstjórar sem ekki hafa skrifað undir samning við Flugstoðir ohf. lögðu í fyrrakvöld fram tillögu að samkomulagi við Ólaf Sveinsson, stjórnarformann Flugstoða, að sögn Lofts Jóhannssonar, formanns Félags flugumferðarstjóra.
Spurður um hvort flugumferðarstjórar hafi dregið úr kröfum sínum segir Loftur að það hafi þeir gert frá því viðræður í málinu hófust en það gildi þó ekki um lífeyrismálin. "Það hefur aldrei verið útfært hver staða lífeyrismálanna er, hver er skerðingin og hvernig má bæta hana," segir Loftur. Þetta komi hins vegar fram í þeim gögnum sem afhent voru stjórnarformanni Flugstoða í gær. Hafi flugumferðarstjórar fengið tryggingastærðfræðing til þess að reikna þetta út fyrir sig.
Í Morgunblaðinu í gær lagði Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri og verðandi forstjóri Flugstoða ohf., áherslu á að engar samningaviðræður stæðu yfir við flugumferðarstjóra, enda væru samningar ekki lausir fyrr en eftir rúmt ár. Loftur segir að þessi ummæli hans megi til sanns vegar færa enda séu flugumferðarstjórar hvorki í samningaviðræðum við Þorgeir Pálsson né Flugmálastjórn Íslands. "Við erum í samningaviðræðum við Flugstoðir og Þorgeir Pálsson er ekki starfsmaður Flugstoða, ekki ennþá allavega," segir Loftur.
"Við setjum aldrei fram óforsvaranlegar kröfur. Ef þær væru óforsvaranlegar myndum við ekki setja þær fram," segir Loftur Jóhannsson um kröfur flugumferðarstjóra.