Kæra á hendur forstöðumanni Byrgisins lögð fram

Eftir Árna Helgason arnihelgason@mbl.is
Kæra hefur verið lögð fram hjá lögreglunni í Reykjavík á hendur Guðmundi Jónssyni, forstöðumanni Byrgisins, fyrir kynferðisbrot og beinast meint brot gegn fyrrverandi vistmanni í Byrginu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvar rannsókn málsins fari fram, en meginreglan sé að meint brot séu rannsökuð þar sem þau fóru fram og því gæti farið svo að lögreglan á Selfossi sæi um rannsóknina.

Lögðu fram svör

Stjórnarmenn Byrgisins gengu í gær á fund félagsmálaráðherra og afhentu honum svör við spurningum sem ráðherra lagði fyrir þá á þriðjudaginn. Að sögn Jóns Arnars Einarssonar, ráðgjafa og stjórnarmanns í Byrginu, voru spurningar ráðherra í sjö liðum og meðal annars var beðið um álit stjórnarmanna á þeim ásökunum sem fram hafa komið í fjölmiðlum um málefni Byrgisins.

Ráðherra óskaði eftir fundi með stjórn Byrgisins á mánudaginn í kjölfar umfjöllunar í fréttaskýringarþættinum Kompási á Stöð 2 á sunnudaginn.

Jón Arnarr sagði að á fundi stjórnarmanna með ráðherra á þriðjudag hefði ráðherra lagt fram lista með spurningum og óskað eftir svörum sem honum voru svo afhent í gær. Ekki náðist í Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra í gær en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu verður farið yfir svörin milli jóla og nýárs.

Taldi sig dottinn út úr stjórn

Eins og áður sagði óskaði ráðherra eftir fundi með stjórn Byrgisins. Aðspurður hverjir sætu í stjórn sagði Jón Arnarr að auk sín sæti Guðmundur Jónsson í stjórninni. Þriðji stjórnarmaðurinn, Leifur Ísaksson, hefði setið í stjórn Byrgisins en með bréfi sem barst Byrginu í gær tilkynnti hann úrsögn sína úr stjórninni. Því skipuðu þeir Guðmundur og Jón stjórn Byrgisins núna. Varamenn í stjórn væru Helga Haraldsdóttir og Elma Ósk Hrafnsdóttir, eiginkonur Guðmundar og Jóns.

Þegar Morgunblaðið innti Leif eftir ástæðum þess að hann hefði ákveðið að segja sig úr stjórninni, sagði Leifur að hann hefði ekki verið boðaður á stjórnarfund í þrjú ár og í raun haldið að hann hefði dottið út úr stjórninni. Það hefði fyrst verið þegar félagsmálaráðuneytið kallaði hann á fund á mánudaginn að hann hefði áttað sig á því að hann væri ennþá formlega í stjórninni. Þá kveðst Leifur hafa tekið ákvörðun um að segja sig úr stjórn félagsins, enda hafi hann ekki hugmynd um hvernig rekstur Byrgisins hafi verið undanfarin ár. Aðspurður hvort stjórnin hafi ekkert fundað þennan tíma, sagðist Leifur ekki vita um það en hann hefði ekki setið fundi. Hins vegar væri hugsanlegt að varamenn hefðu setið fundina.

Félagsmálaráðuneytið óskaði eftir því í byrjun nóvember að ríkisendurskoðun gerði athugun á því hvernig fjárstuðningi sem ríkið hefur veitt til reksturs Byrgisins hefði verið varið. Jón Arnarr sagði að fundað hefði verið með starfsmönnum ríkisendurskoðunar vegna málsins á mánudaginn. Þar hefði verið spurt út í fjármál og starfsmönnum ríkisendurskoðunar afhent gögn þar að lútandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert