Ráðherra óskaði eftir fundi með stjórn Byrgisins á mánudaginn í kjölfar umfjöllunar í fréttaskýringarþættinum Kompási á Stöð 2 á sunnudaginn.
Jón Arnarr sagði að á fundi stjórnarmanna með ráðherra á þriðjudag hefði ráðherra lagt fram lista með spurningum og óskað eftir svörum sem honum voru svo afhent í gær. Ekki náðist í Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra í gær en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu verður farið yfir svörin milli jóla og nýárs.
Þegar Morgunblaðið innti Leif eftir ástæðum þess að hann hefði ákveðið að segja sig úr stjórninni, sagði Leifur að hann hefði ekki verið boðaður á stjórnarfund í þrjú ár og í raun haldið að hann hefði dottið út úr stjórninni. Það hefði fyrst verið þegar félagsmálaráðuneytið kallaði hann á fund á mánudaginn að hann hefði áttað sig á því að hann væri ennþá formlega í stjórninni. Þá kveðst Leifur hafa tekið ákvörðun um að segja sig úr stjórn félagsins, enda hafi hann ekki hugmynd um hvernig rekstur Byrgisins hafi verið undanfarin ár. Aðspurður hvort stjórnin hafi ekkert fundað þennan tíma, sagðist Leifur ekki vita um það en hann hefði ekki setið fundi. Hins vegar væri hugsanlegt að varamenn hefðu setið fundina.
Félagsmálaráðuneytið óskaði eftir því í byrjun nóvember að ríkisendurskoðun gerði athugun á því hvernig fjárstuðningi sem ríkið hefur veitt til reksturs Byrgisins hefði verið varið. Jón Arnarr sagði að fundað hefði verið með starfsmönnum ríkisendurskoðunar vegna málsins á mánudaginn. Þar hefði verið spurt út í fjármál og starfsmönnum ríkisendurskoðunar afhent gögn þar að lútandi.