Dæling átti að hefjast úr flutningaskipinu Wilson Muuga á fimmta tímanum í dag en hún tafðist þar sem hagræða þurfti slöngunni. Skipið liggur strandað við Hvalsnes og á að dæla svartolíu og dísilolíu úr því yfir í dælubíl frá Olíudreifingu. Búið er að koma slöngu og tækjum yfir í skipið en undirbúningur hefur staðið yfir í allan dag. Sjór er tiltölulega lygn, lítið brim og aðstæður því góðar.
Reiknað er með því að dælivinnan taki 12 tíma hið minnsta. Olían er að mestu svartolía en eitthvað er af dísilolíu í skipinu. Menn frá hjálparsveitunum, Olíudreifingu og Umhverfisstofnun eru að störfum á svæðinu, um 30 manns í heildina.