"VIÐ viljum biðja fólk afsökunar á þessum mistökum," segir Baldur Baldursson, framkvæmdastjóri pitsufyrirtækisins Dominos, en sms-skilaboð með jólakveðju frá fyrirtækinu voru send á um 80 þúsund viðskiptavini fyrirtækisins og bárust mörg þeirra er komið var fram á aðfangadagskvöld og fólk snæddi jólamatinn með fjölskyldu sinni.
"Við vorum í góðri trú. Þessi skilaboð áttu að fara út á milli kl. 10 og 14 en mistök hjá þjónustuaðila okkar urðu til þess að skeytin héldu áfram að berast," segir Baldur sem hafnar þeim orðum Jóhannesar Gunnarssonar, formanns Neytendasamtakanna, að sending Dominos sé dulbúin auglýsing. "Þetta var jólakveðja sem var hugsuð til að gleðja fólk," segir hann.