Jón Bjarnason, þingmaður VG, hefur óskað eftir því að fundur verði kallaður saman í samgöngunefnd Alþingis vegna þeirrar stöðu, sem komin er upp í flugleiðsögn og flugumferðarstjórn í landinu frá og með næstu áramótum.
Í bréfi sem Jón hefur sent Guðmundi Hallvarðssyni, formanni nefndarinnar, er óskað eftir að samgönguráðherra og aðrir, sem beri beina ábyrgð á framvindu þessa máls geri nefndinni grein fyrir stöðu mála. Jafnframt kanni nefndin hvað Alþingi geti gert til að leysa deilu samgönguráðherra við flugumferðarstjóra og tryggja flugöryggi og flugleiðsögn í höndum íslenskrar flugumferðarstjórnar.
Segir Jón að sú lausn blasi við að falla frá eða fresta gildistöku laganna um hlutafélagavæðingu flugumferðarstjórnar frá næstu áramótum og tryggja þar með órofinn ráðningarsamning starfsmanna.