Mikið var að gera í verslunarmiðstöðvum höfuðborgarsvæðisins í dag. Margir lögðu leið sína í verslanir til að skipta jólagjöfunum. Útsölur eru hafnar í nokkrum verslunum en aðrar voru með lokað vegna vörutalningar. Reglan bæði hjá Smáralind og Kringlunni er að miða við að útsölur hefjist fyrstu dagana í janúar.
„Það var margt fólk hér í dag, við lítum á þennan dag sem þjónustu við okkar viðskiptavini, það liggur við að það sé jafnmikil eftirvænting að fá að skipta gjöfum eins og að opna pakkana og því teljum við að það sé mikilvægt að hafa opið þennan dag," sagði Theódóra Þorsteinsdóttir markaðsstjóri í Smáralind.