Lögreglumenn frá Akranesi, sem voru á eftirlitsferð aðfaranótt aðfangadags, mættu bíl við norðurenda Hvalfjarðarganga. Ökumaður bílsins snéri við þegar hann varð lögreglu var og ók á ofsahraða suður göngin. Lögreglumenn veittu bílnum eftirför en misstu sjónar af honum áður en komið var í gegn um göngin.
Aðstoðar lögreglunnar í Reykjavík var óskað en þrátt fyrir leit fannst bíllinn ekki. Lögreglan segist þó hafa upplýsinga um hver ökumaðurinn var og hefur hann verið boðaður til yfirheyrslu.
Samkvæmt tímasetningum í myndavélum ganganna var meðalhraði bílsins í göngunum liðlega 150 km/klst.
Á Þorláksmessu var maður handtekinn á Akranesi grunaður um fíkniefnamisferli. Við húsleit á heimili hans framvísaði hann um 30 grömmum af hassi og þremur grömmum af amfetamíni. Við yfirheyrslu játaði maðurinn að hann ætti efnin og kvað þau hafa verið ætluð til eigin neyslu.
Að morgni 27. desember sofnaði ökumaður bíls, sem var á leið um Innnesveg, undir stýri með þeim afleiðingum að bíllinn fór út af veginum, í gegnum giðingu og inn á tún. Ökumanninn sakaði ekki en bíllinn skemmdist talsvert og þurfti að flytja hann af vettvangi með kranabíl.