Tíu ökumenn teknir ölvaðir í höfuðborginni

Tíu ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík um jólin. Flestir voru stöðvaðir seint á Þorláksmessukvöld eða aðfaranótt aðfangadags.

Þá stöðvaði lögreglan för nokkurra ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Í þeim hópi var 17 ára piltur sem fékk ökuskírteini í lok síðasta mánaðar. Sá var nýverið tekinn fyrir ofsaakstur í borginni og missti þá prófið en heldur samt áfram akstri. Þá tók lögreglan þrjá ökumenn sem höfðu aldrei öðlast ökuréttindi.

Allnokkrir voru stöðvaðir fyrir hraðakstur. Þeirra á meðal var rúmlega tvítugur karlmaður en bíll hans mældist á 132 km hraða á Vesturlandsvegi við Grafarholt en þar er leyfður hámarkshraði 80. Þetta var á aðfangadagskvöld. Viðurlög við þessu umferðarlagabroti eru 75 þúsund króna sekt og ökuleyfissvipting í einn mánuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert