Gert er ráð fyrir að 550 þúsund flugeldum verði skotið á loft upp um áramótin en 991 tonn af þeim var flutt inn til landsins. Alls eru flugeldar seldir á 49 stöðum í Reykjavík og brennurnar í borginni verða ellefu og flugeldasýningar sex fyrir áramót.
Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfissviði Reykjavíkurborgar hófst söfnun í borgarbrennurnar hófst í dag og stendur til hádegis á gamlársdag. Safnað verður í ellefu áramótabrennur í Reykjavík og eru þær á sömu stöðum og í fyrra. Starfsmenn Reykjavíkurborgar velja og taka við efni og raða í bálkestina en einungis er leyfilegt að nota pappa og timbur í brennur og þess háttar brennuefni. Kveikt verður á öllum brennunum kl. 20:30 á gamlárskvöld nema þeirri við Úlfarsfell sem kveikt verður kl. 15. Um það bil 3300 erlendir ferðamenn gista hér til að fylgjast með brennum og flugeldaskotgleði borgarbúa.
Á heimasíðu umhverfissviðs er minnt á, að dýrin séu ekki spennt fyrir flugeldum. Hundar og kettir hræðist lætin í flugeldunum um áramótin og sé æskilegt að halda þeim innandyra. Gott ráð sé að hafa hundana í öruggu rými sem þeir þekkja og loka gluggum og draga fyrir. Best sé að hafa hestana sem mest inni í hesthúsum á gamlársdag og á þrettándanum en ekki lausa úti í gerðum og alls ekki eftirlitslausa. Margir hestaeigendur hafa útvarpið á í hesthúsum til að búa dýrin undir lætin.
Ekki er búist við mikilli mengun vegna bálkastanna, efnið í þá er sérvalið, undirlagið gott og slökkt er í þeim á nýársnótt og hreinsað daginn eftir. Hvort mikil loftmengun verður þegar flugeldaskothríðin hefst ræðst af veðurfarsaðstæðum. Á nýársnótt 2006 var svifryksmengun hátt yfir heilsuverndarmörkum. Færanleg mælistöð Mengunarvarna Umhverfissviðs sem staðsett var á Langholtsvegi sýndi 1800 míkrógrömm á rúmmetra þegar nýtt ár gekk í garð. Svifryksgildi mældust há fram á morgun þangað til að vindhraði fór að aukast og úrkoma byrjaði.