Allir starfsmenn Norðuráls í lyfjapróf

Allir starfsmenn Norðuráls, sem eru um 400 talsins, munu eftir áramótin gangast undir lyfjapróf og hefur fyrirtækið jafnframt ákveðið að framvegis verði slík próf framkvæmd reglulega og verði tilviljun látin ráða því hvaða starfsmenn gangast undir prófið hverju sinni. Þetta segir Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og fjármálasviðs, hjá Norðuráli. Ragnar segir að á kynningarfundi um málið í fyrirtækinu hafi sú hugmynd komið fram hjá hópi starfsmanna að allir yrðu settir í lyfjapróf. "Það var ákveðið af hálfu fyrirtækisins að verða við þeirri ósk," segir Ragnar. Í framhaldinu hafi verið rætt við fleiri starfsmenn og virðist almenn ánægja vera meðal þeirra með prófin.

Í lögum um persónuvernd er ekkert sem bannar að fyrirtæki láti framkvæma lyfjapróf á starfsfólki sínu en þar eru gerðar kröfur um að málefnalegur tilgangur búi að baki söfnun viðkvæmra persónuupplýsinga.

Ragnar segir að hingað til hafi enginn starfsmaður Norðuráls verið staðinn að neyslu ólöglegra lyfja við störf sín hjá fyrirtækinu.

Hins vegar sé ljóst að neyti fólk slíkra efna sé það bæði hættulegt sjálfu sér og öðrum. Hjá Norðuráli sé starfsfólk oft að meðhöndla heitan málm og stór tæki og fari eitthvað úrskeiðis liggi mikið við.

Munnvatnssýni tekin

"Þetta er liður í því að skapa mönnum eins gott starfsöryggi eins og hægt er," segir Ragnar um hin fyrirhuguðu lyfjapróf.

Ragnar segir að vegna prófanna hafi Norðurál fengið til liðs við sig fyrirtækið InPro, en það starfar meðal annars á sviði heilsu- og vinnuverndar. Prófin verði framkvæmd þannig að munnvatnssýni starfsmanna verði rannsökuð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert