eftir Brján Jónasson
brjann@mbl.is
ALMENNINGUR ætti að finna fyrir lækkun á skattbyrði ríkisins frá næstu áramótum þegar tekjuskatturinn lækkar um eitt prósentustig og persónuafslátturinn hækkar. Á sama tíma hækka hins vegar ýmis þjónustugjöld opinberra aðila og því ekki víst að mikið sitji eftir í vasa neytenda.
Fjölmargir liðir í gjaldskrá Reykjavíkurborgar, t.d. frístundaheimili, leikskólar og þjónustumiðstöðvar aldraðra, munu til að mynda hækka verðskrá sína um áramótin, yfirleitt um 8,8%. Þannig hækkar verðskrá sundlauga í Reykjavík að meðaltali um 8,8%. Stakar sundferðir fyrir fullorðna munu hækka um 25% en stakar ferðir fyrir börn lækka um 16,6% frá áramótum.
Einstaka liðir hækka þó mun meira. Til að mynda munu sorphirðugjöld hækka um 22,9%, verð á hverja tunnu fer úr 10.010 kr. í 12.300 kr. Þá mun verð á köldu vatni hækka um 12,2% hjá Orkuveitu Reykjavíkur, auk þess sem raforkuverð mun hækka um 2,4%.
Önnur stór sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa ýmist tekið ákvörðun um að hækka ekki eða ekki tekið ákvörðun um hversu mikil hækkun verður.
Önnur höndin | Miðopna