Hátt í þrjátíu flugumferðarstjórar hafa nú ráðið sig til starfa hjá Flugstoðum, sem hefur rekstur á miðnætti 1. janúar næstkomandi, samkvæmt upplýsingum Hjördísar Guðmundsdóttur, upplýsinga- og kynningarfulltrúi Flugmálastjórnar Íslands, en skrifað var undir þjónustusamning samgönguráðuneytisins og Flugstoða, um þjónustu á sviði flugvallarekstrar og flugumferðarþjónustu í dag.
Þá segir hún að þeir flugumferðarstjórar sem hafi ráðið sig til starfa hjá Flugstoðum hafi margir áratuga reynslu af flugumferðarstjórn. Þá hafi sumir þeirra verið í endurþjálfun að undanförnu sem miði að því að virkja réttindi þeirra.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum munu flugumferðarstjórar vinna eftir sérstakri viðbragðsáætlun í nánu samstarfi við nærliggjandi flugstjórnarmiðstöðvar á meðan ekki hefur verið ráðið í allar stöður þeirra. Fram kemur í yfirlýsingu Flugmálastjórnar Íslands að markmið viðbragðsáætlunarinnar sé að tryggja flugöryggi á flugstjórnarsvæðinu og sjá til þess að sem minnst röskun verði á millilanda- og innanlandsflugi, þótt hugsanlega verði um tímabundinn skort á flugumferðarstjórum að ræða í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.
Viðbúnaðaráætlunin felur í sér breytingu á skipulagi flugumferðar á íslenska flugstjórnarsvæðinu sem mun að mestu leyti fylgja föstum fyrirfram ákveðnum ferlum og flughæðum. Innanlandsflugið mun á sama hátt fylgja föstum ferlum í leiðarflugi á milli flugvalla.