Umhverfisráðherra hefur ákveðið veiðikvóta hreindýra og verð á veiðileyfum til hreindýraveiða árið 2007. Heimilt verður að veiða 1.137 dýr, 577 kýr og 560 tarfa. Á þessu ári sem nú er að líða var leyfilegt að veiða 909 dýr.
Umhverfisstofnun lagði til við ráðuneytið að verð á veiðileyfum til hreindýraveiða árið 2007 yrði hækkað með tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs og til að samræma verð eftir veiðisvæðum.
Ráðuneytið féllst ekki á tillögurnar þar sem hvorki er getið um tengingu verðlagningar veiðileyfa við neysluverðsvísitölu í lögum né reglugerðum sem um stjórnun hreindýraveiða gilda. Því hefur verið ákveðið að verði á veiðileyfum hækki minna en stofnunin leggur til og verði sem hér segir:
Tarfur á veiðisvæðum 1 og 2 110.000 kr.
Tarfur á veiðisvæðum 3-5 og 7-9 70.000 kr.
Tarfur á veiðisvæði 6 80.000 kr.
Kýr á veiðisvæðum 1 og 2 60.000 kr.
Kýr á veiðisvæðum 3-9 40.000 kr.
Kálfar á öllum svæðum 18.000 kr.