gudni@mbl.is
"Þetta bar gríðarlega brátt að," sagði Huld Óskarsdóttir sálfræðinemi sem eignaðist litla dóttur með hraði í fyrrakvöld. Huld býr ásamt manni sínum, Sigurði Högna Jónssyni, nema í upplýsingatækni, og fjögurra ára dóttur þeirra, Bergþóru, á Eyrarsunds-stúdentagörðunum á Amager í Danmörku.
Í fyrrakvöld kenndi Huld sín og hringdi á fæðingardeild sjúkrahússins í Hvidovre til að láta vita að sennilega væri hún að fara að eiga. Sigurður fór með Bergþóru í pössun kl. 21.00 og kom heim tíu mínútum síðar og þau pöntuðu leigubíl.
"Við fórum niður í lyftunni og barnið kom bara um leið og leigubíllinn. Í orðsins fyllstu merkingu," sagði Huld. "Ég stóð fyrir utan húsið og var farin að krossleggja fæturna. Hugsaði: Guð minn góður. Leigubíllinn er of seinn! Ég trúði því að ef ég kæmist í bílinn gæti ég náð á spítalann í tæka tíð."
Huld var ekki búin að missa legvatnið en fann að barninu lá mikið á. "Um leið og ég settist inn í leigubílinn fann ég að það var eitthvað á leiðinni, fór með hendurnar ofan í buxurnar og kom upp með stúlkuna! Vatnið fór um leið og hún kom út. Þetta gerðist svo ofboðslega hratt!"
Huld segir að um leið og hún snerti kollinn á stúlkunni hafi hún sagt leigubílstjóranum að hringja í neyðarlínuna og biðja um sjúkrabíl.
"Hann spurði hvað símanúmerið væri í 112," sagði Huld. "Leigubílstjórinn var alveg úti að aka og langmest sjokkeraður af okkur. Ég sagði manninum mínum að hringja í Ingibjörgu Hrefnu Björnsdóttur vinkonu mína, sem er hjúkrunarfræðingur, og býr í næstu blokk. Hún kom með handklæði til að vefja um stúlkuna. Ég vöðlaði naflastrengnum einhvern veginn um þá litlu og eiginlega stakk henni inn á mig."
Sjúkrabíllinn kom von bráðar með lækni, enda sjúkrabílastöð skammt frá. "Þeir settu klemmur á naflastrenginn og pabbinn fékk að klippa á strenginn inni í leigubílnum. Leigubíllinn fór aldrei af stað með okkur. Aumingja leigubílstjórinn var alveg ringlaður. Hann fór út úr bílnum og gekk bara í hringi þangað til læknirinn kom," sagði Huld. Hún telur að leigubílstjórinn sé uppalinn í öðrum menningarheimi en vestrænum. "Hann hefur örugglega aldrei mátt sjá fæðingu eða neitt slíkt. Hvað þá einhverja brjálaða konu sem kemur inn í leigubílinn og tekur út úr sér barn! Hann var algjörlega lamaður þegar við vorum að fara og læknarnir að sinna honum. Þeir sögðu honum að þetta væri allt í lagi."
Litla stúlkan var 11,5 merkur að þyngd og hefur verið nefnd Álfheiður. Þær mæðgur komu heim af fæðingardeildinni síðdegis í gær og heilsast báðum vel.