Í nótt var skotið á fjölskyldubifreið lögreglumanns á Blönduósi. Enginn var í bílnum er skotið reið af. Lögreglan telur víst að um kúlnagöt sé að ræða. Kúlan fór inn um eina hliðarrúðuna og út um aðra en kúlan hefur ekki fundist og engin vitni heyrðu skothvell í nótt.
„Þetta uppgötvaðist um tíuleytið í morgun," sagði Hermann Ívarsson varðstjóri lögreglunnar á Blönduósi í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. „Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og ef þetta hefur verið slysaskot þá er það auðvitað mjög alvarlegt líka," sagði Hermann.
„Við óttumst hitt meira að þetta sé viljaverk og að það sé verið að ógna með þessu," bætti Hermann við. Rannsókn málsins stendur yfir.
Hermann sagði að ekki hefði verið óvenjumikil ölvun á Blönduósi í nótt en bíllinn stóð í innkeyrslu við hús í miðjum bænum.
Bíllinn er ekki í eigu lögreglumannsins en hann notar hann til jafns við aðra fjölskyldumeðlimi.
Lögreglumaðurinn telur sig ekki eiga neina svarna óvini og honum hefur ekki verið hótað lífláti af neinum.