Dana Cowin, aðalritstjóri bandaríska tímaritsins Food & Wine, spáir því í samtali við bandaríska dagblaðið USA Today, að matvæli frá Íslandi verði vinsæl þar í landi á næsta ári. Hún nefnir sérstaklega íslenskt vatn, skyr og lambakjöt.
Cowin segist telja, að Skandinavía verði „hinn nýi Spánn" í bandarískri matarmenningu. „Það eru nokkrir frábærir matreiðslumenn í þessum heimshluta og þeir hafa gert tilraunir með hráefni þaðan og þeir blása nýju lífi í matinn þeirra, eins og matreiðslumenn gerðu og gera enn á Spáni," segir Cowin.