Mikil viðbrögð hafa orðið við aftöku Saddams Hussein um heim allan. Utanríkisráðherra segir að virða verði lögmæta niðurstöðu íraskra dómstóla þó stjórnvöld séu andvíg dauðarefsingum en forystumenn íslenskra stjórnmálaflokka óttast allir afleiðingar aftökunnar.
„Við leysum ekki vandann í Írak með því að taka Saddam Hussein af lífi. Persónulega er ég á móti dauðarefsingum og hef alltaf verið,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún segir að alltaf megi búast við því að ofbeldismenn noti aftökuna sem skálkaskjól fyrir ofbeldisverk.
Íslensk stjórnvöld eru mótfallin dauðarefsingum og eiga aðild að alþjóðasamningum þess efnis, segir Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra. „En dómstólar í Írak hafa fellt þennan úrskurð, og þar í landi er heimild til dauðarefsinga í lögum, og lögmætur dómstóll sem fellir þann úrskurð. Við virðum þá niðurstöðu.
Ég óttast að til skemmri tíma litið geti þessi aftaka aukið á hörmungarnar í Írak, en tel ekki að það verði þannig til lengri tíma litið, það hefur legið í loftinu um sinn að þetta yrði með þessum hætti.“
Óttast píslarvætti
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segist óttast að Saddam Hussein verði gerður að píslarvotti í kjölfar aftöku hans í nótt.
„Ég fyllist alltaf ónotakennd þegar ríkisvaldið stendur fyrir aftökum á fólki hvar sem það er og hvað sem það hefur af sér brotið og það átti við í þessu tilviki eins og öðrum,“ segir Ingibjörg. „Ég óttast að aftakan muni ekki bæta ástandið í Írak og tel að betur hefði farið að Saddam hefði þurft að svara fyrir allar sínar ávirðingar í eðlilegri réttarhöldum. Það hefði aukið líkur á því að sátt næðist milli stríðandi fylkinga í landinu.“
Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri-grænna segir að Saddam Hussein hafi verið illvígur harðstjóri og til hans megi rekja hrottaleg ofbeldisverk. „Væri farið að kennisetningunni „auga fyrir auga og tönn fyrir tönn“ mætti eflaust réttlæta að hann væri látinn gjalda með lífi sínu en það er ekki leiðin út úr vítahring ofbeldis og haturs og ég óttast að aftaka Saddams Hussein verði sem olía á ófriðarbálið í Írak og það til langs tíma. Aftaka Saddams Hussein varpar ekki aðeins ljósi á hann sjálfan, heldur á böðla hans einnig, frumstæða grimmd þeirra og vanmátt frammi fyrir viðfangsefni sínu að lægja öldur í stríðshrjáðu landi. Þeir hugsa með ofbeldishnefanum líkt og Saddam gerði sjálfur.“
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir að þrátt fyrir að Saddam hafi, sem forystumaður þjóðar verið harðstjóri og illvirki að mörgu leyti þá sé það óvíst hvort aftaka hans muni bæta ástandið í Írak.
„Maður hefur af því áhyggjur að aftakan geti jafnvel haft þau áhrif að átökin þar í landi harðni enn frekar og íraska þjóðin hefur þurft að þola nógu mikið á undanförnum árum þótt ekki sé á það bætt.“