Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt um alvarlega líkamsárás fyrir utan veitingastað í Keflavík. Þar var maður sleginn í höfuðið með flösku. Hlaut maðurinn stóran og djúpan skurð á hnakka. Árásarþoli var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem gert var að sárum hans. Hann mun ekki vera með lífshættulega áverka. Árásaraðili var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Átta tilkynningar bárust til lögreglu í Keflavík í gærkvöldi varðandi flugeldasprengingar. Var það m.a. vegna ungra manna sem voru að henda flugeldum úr bifreið á ferð. Lögregla veitti nokkrum fjölda tiltal vegna slæmrar meðferðar á flugeldum. Lögregla þurfti í nótt að sinna þremur verkefnum vegna skotelda. Í einu tilfelli hafði verið settur flugeldur í púströr bifreiðar. Skemmdist púströrið nokkuð vegna þess.
Skömmu fyrir klukka 23:00 hugðist lögregla stöðva bifreið á Sandgerðisvegi vegna hraðaksturs. Ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum og ók áleiðis til Keflavíkur. Fleiri lögreglubifreiðar tóku þátt í eftirförinni og náðist að stöðva ökumann á Hringbraut skammt frá Mánatorgi. Ökumaður, sem var alsgáður, gaf þá skýringu að hann væri „tæpur á punktum". Sami ökumaður var svo stöðvaður í Keflavík aðfaranótt sunnudagsins á 98 km hraða þar sem hámarkshraði er 50 km/klst.
Tveir ökumenn voru handteknir í nótt vegna ölvunaraksturs.