Félagsmálaráðherra varar við daðri við fordóma

Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra

Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, segir í fréttabréfi félagsmálaráðuneytisins að mikil umræða hafi skapast um frjálsa för verkafólks á haustdögum. Segir hann slíka umræðu bæði holla og góða „en ég vara eindregið við að menn daðri við fordóma, því að það bitnar á þeim sem síst skyldi.“

Gera má ráð fyrir að á árinu 2006 hafi hátt í 11.000 erlendir ríkisborgarar komið til starfa á Íslandi, þótt ekki séu þeir svo margir starfandi á hverjum tímapunkti, og að um 6.000 séu enn á vinnumarkaði sem voru hér starfandi á árinu 2005. Erlendir ríkisborgarar á íslenskum vinnumarkaði eru því að öllum líkindum nálægt 16.000 um þessar mundir.

Frjáls för verkafólks í samræmi við grundvallarreglur samningsins um evrópska efnahagssvæðið varð tilefni mikillar umræðu í haust. Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra segir að umræða sem slík sé bæði holl og nauðsynleg, „en ég vara eindregið við að menn daðri við fordóma, því að það bitnar á þeim sem síst skyldi.“

Magnús segir að innflytjendamál hafi verið í forgangi í félagsmálaráðuneytinu frá því að hann tók við stjórnartaumunum þar í sumar.

Unnið sé á mörgum vígstöðvum og í góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins við að styrkja innviði atvinnulífsins, bæta eftirlit og auðvelda innflytjendum aðlögun að íslensku samfélagi.

„Til dæmis hefur ríkisstjórnin stóraukið framlög til íslenskukennslu fyrir innflytjendur,“ segir Magnús.

„Við Íslendingar verðum að rækja sómasamlega þær skyldur sem við höfum tekist á herðar í alþjóðlegu samhengi til að eiga kost á hagræðinu sem í EES-samningnum felst."

„Í ráðuneytinu hefur verið brugðist við fréttum um að aðbúnaður verkafólks, meðal annars útlendinga, sé óviðunandi. Ég hef þar að auki kynnt í ríkisstjórninni frumvarp til laga sem felur meðal annars í sér að tökin á þessum málum verði hert ásamt því að skerpa ábyrgð fyrirtækja.“

Hann bætir við að markmiðið með frumvarpinu um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra sé meðal annars að erlendir starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði fái laun og önnur starfskjör í samræmi við íslensk lög og kjarasamninga. Þar með talin séu réttindi í sambandi við til dæmis veikindi og slys og bætur vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku.

„Þetta nýja frumvarp gerir ráð fyrir ríkri upplýsingaskyldu og eftirliti og heimild til að stöðva atvinnustarfsemi ef ekki er farið að settum reglum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka