Formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra segir félagið reiðubúið til að halda áfram viðræðum við Flugstoðir ohf., en upplýsingafulltrúi Flugstoða segir viðræðum lokið eftir að ekki var skrifað undir samkomulag á fundi í kvöld.
Formaður FÍF, Loftur Jóhannsson, sagði í kvöld að félagið væri tilbúið til að ræða áfram við Flugstoðir, og að jafnvel kynni að vera hægt að finna leið framhjá þeirri kröfu að bera samkomulag undir félagsfund.
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Flugstoða, sagði að viðræðum af hálfu fyrirtækisins væri lokið, en hverjum og einum flugumferðarstjóra væri velkomið að sækja um vinnu hjá því.