Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra Reykjavíkur:
„Vegna ummæla Páls Hreinssonar, lagaprófessors og formanns stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands, um að Happdrætti Háskóla Íslands sé "ekki réttur viðmælandi borgaryfirvalda á rekstri spilasalar Háspennu í Mjódd" vil ég koma eftirfarandi á framfæri:
Happdrætti Háskóla Íslands er fyrirtæki í eigu Háskóla Íslands. Háskólinn tilnefnir í stjórn þess en tilgangur fyrirtækisins er að afla fjármuna til reksturs Háskólans. Formaður stjórnar er fyrrgreindur Páll Hreinsson prófessor.
Nú hagar þannig til, lögum samkvæmt, að tveir lögaðilar hafa einkaleyfi til að reka peningahappdrætti og er annar þeirra Happdrætti Háskóla Íslands. Aftur á móti er það svo að Happdrætti Háskóla Íslands hvorki á né rekur þá ógæfukassa sem dreifðir eru víða um borgina. Þessir kassar á vegum Happdrættis Háskólans munu vera í eigu einhvers fyrirtækis í Reno í Bandaríkjunum þar sem rekstur spilavíta er landlægur. Þetta bandaríska fyrirtæki leigir spilakassa til einkafyrirtækis hér á landi sem heitir Háspenna og er í eigu tveggja einstaklinga. Háspenna rekur síðan þessa spilakassa á vegum Happdrættis Háskóla Íslands samkvæmt lögum frá Alþingi. Skipting ágóða milli þessara þriggja aðila hefur ekki komið fram opinberlega svo ég viti til.
Þótt Happdrætti Háskólans sé ekki lögformlegur eigandi að því spilavíti sem til stendur að starfrækja í Mjóddinni er hins vegar ljóst að Happdrættið og Háskólinn bera fulla ábyrgð á því hvar þessir spilakassar eru niðurkomnir. Í þeim efnum er það afdráttarlaus skoðun borgaryfirvalda að það sé með öllu óforsvaranlegt að slíkri starfsemi sé stungið niður í fjölförnum þjónustukjarna fyrir fjölskyldur eins og raun ber vitni.
Ég hef nú þegar óskað eftir fundi, strax eftir áramót, með eigendum Háspennu, stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands og rektor Háskóla Íslands til að ræða fyrirkomulag þessa reksturs.
Borgaryfirvöld hafa það í hendi sér að skipuleggja hvar starfsemi af þessu tagi fer fram með heildar hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi.
Ég sem borgarstjóri mun beita mér fyrir því."