Fulltrúar Flugstoða ohf. og Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) skrifuðu í kvöld undir samkomulag. Ólafur Sveinsson, stjórnarformaður Flugstoða, segir samninginn sem undirritaður var vera þann sama og fyrir hafi legið í gærkvöldi. Báðir aðilar séu sáttir við að málið sé í höfn og nú hefjist uppbygging fyrirtækisins af fullum krafti.
Stjórn félags flugumferðarstjóra býst við því að á morgun muni þeir flugumferðarstjórar, sem ekki hafa ráðið sig hjá Flugstoðum, ganga til liðs við félagið og flugumferð á íslenska svæðinu fara í eðlilegt horf. Loftur Jóhannsson, formaður FÍF, segir menn mjög sátta við að málinu skuli lokið. „Þetta er sá samningur sem lá fyrir í gær, og þá þegar voru menn sáttir við hann,“ sagði Loftur.
Hann segir alla gera sér grein fyrir að það muni taka einhvern tíma að komast yfir þær deilur sem sprottið hafi. „Það urðu ýfingar með mönnum en allir munu taka sameiginlega á því. Nú verður hægt að koma starfseminni í eðlilegt horf og hefja uppbyggingu fyrirtækisins.“