Vissu ekki um kraftinn fyrr en sprengingin varð

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson orsi@mbl.is

Sá sem mest slasaðist er með 2. stigs brunasár í andlitinu en hann slapp á hinn bóginn við augnskaða. Segir hann nokkuð öruggt að fikt með heimatilbúnar sprengjur sé hér með úr sögunni. Ákvað hann að segja frá slysinu ef það mætti verða til þess að aðrir létu sér reynslu hans að kenningu verða.

"Við vorum með sprengipúður úr vítistertu sem við settum í poka," segir hann. "Síðan gerðum við smágat á pokann og kveiktum í. Við vissum ekki hvað þetta var kraftmikið fyrr en sprengingin varð. Rétt eftir að kviknaði í púðrinu blindaðist ég og gat ekki dregið andann en síðan tókst mér að ná andanum. Ég heyrði vini mína öskra og þeir bönkuðu á nálægar dyr. Vinur minn sem minnst slasaðist kom síðan og sótti mig og færði mér blautt handklæði. Við biðum síðan í smástund eftir sjúkrabíl. Við fengum kæligel hjá sjúkraliðunum og vorum fluttir á slysadeildina."

Hélt á sprengjunni í höndunum

Hann segist hafa liðið miklar kvalir strax eftir slysið en brunameðferðin á spítalanum sé hins vegar bærileg og ekki sársaukafull, að undanskildu svonefndu "brunabaði" sem fólst í hreinsun andlitsins. Voru það óhreinindi og púður í andlitinu sem voru fjarlægð í þessu brunabaði.

Pilturinn segir marga hafa varað sig við sprengjutilraunum en hann hafi hins vegar alltaf talið sig öruggan. Flugeldaslys, sem alltaf séu í umræðunni fyrir hver áramót, séu nokkuð sem geti hent "aðra". "En við bjuggumst ekkert við þessu og því fór sem fór," segir hann.

Móðir hans segist vona að krakkar sem lesi þessa frásögn hugsi sinn gang varðandi meðferð flugelda og læri af þessari bitru reynslu. "Sérstaklega þar sem annar "sprengidagur" er í nánd, þ.e. þrettándinn á laugardaginn næstkomandi," segir hún.

Pilturinn er nú með grisjur í andliti og sýkingarhætta talsverð. Sárin eru metin á hverjum degi og fer það eftir því hve vel þau gróa hvenær hann getur farið heim til sín. Þau mæðgin vilja að lokum koma á framfæri miklu þakklæti til starfsfólks Landspítalans fyrir góða umönnun.

Í hnotskurn
» Piltarnir voru með sprengipúður úr vítistertu sem þeir settu í poka.
» Sá sem slasaðist mest segir þá félaga ekki hafa hugsað út í það hvað myndi gerast.
» Móðir piltsins vonar að frásögn sonar hennar veki aðra krakka til umhugsunar um meðferð flugelda.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert