"VIÐ sáum í fyrsta skipti fjölgun farþega frá því þetta fyrirtæki tók til starfa í núverandi mynd," segir Ásgeir Eiríksson, forstjóri Strætós bs., um nýliðið ár. Að sögn hans má ætla að fjölgun farþega á seinasta ári hafi verið á bilinu 3–4%.
Ásgeir segir engar grundvallarbreytingar á þjónustunni á döfinni á nýju ári. "Við hyggjumst einbeita okkur að því að vinna áfram hægt og rólega að því að þróa okkar þjónustu og reyna að fylgja þessum umskiptum eftir," segir hann. Ásgeir segir að gerðar séu ákveðnar kröfur til Strætó um sparnað í rekstri og unnið sé að því þessar vikurnar. "Við ætlum að reyna eins og kostur er að hagræða í rekstrinum án þess að þurfa að skerða þjónustuna," segir hann.
Til umræðu sé að taka upp svipað fyrirkomulag og þekkt er í jaðarbyggðum í nágrannalöndum, þar sem notendur þjónustunnar eru hlutfallslega fáir hafa verið settar upp fastar ferðir á tímum þegar flestir þurfa á þjónustunni að halda en þar fyrir utan sé rekin pöntunarþjónusta. "Þá panta menn í þær ferðir. Við ætlum að halda áfram að hafa í boði sama ferðafjölda og er í dag en förum ekki í ferðir nema einhver vilji nýta sér þær."