Þrír ungir menn gáfu sig í gær fram við lögregluna í Reykjavík eftir að lýst hafði verið eftir þeim vegna grófrar líkamsárásar í Garðastræti á nýársnótt. Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir birting mynda úr öryggismyndavél hafa skipt grundvallarmáli við lausn málsins.
Lögreglan er með átta öryggismyndavélar í miðborginni og að sögn Harðar hafa upptökur úr þeim nýst vel til lausnar á mörgum sakamálum sem hafa komið upp. Hvað varðar upptökur úr öðrum öryggismyndavélum, þ.e. vélum sem lögreglan hefur ekki á sínum snærum, segir Hörður lögregluna telja sig hafa fulla heimild til þess að nýta þær ef svo ber undir. Þannig náðust myndir af árásinni í Garðastræti á öryggismyndavél við kínverska viðskiptasendiráðið.
Lögreglan sendi myndirnar til fjölmiðla og í kjölfar þess bárust henni ýmsar ábendingar.