Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, segir að náist ekki samningar um aðild Rúmeníu og Búlgaríu að Evrópska efnahagssvæðinu gæti EES-samningurinn verið í hættu. Valgerður sagði við fréttastofu Ríkisútvarpsins, að Íslendingar vilji ekki missa af EES-samningnum og ef ekki náist samningar um stækkun í kjölfar fjölgunar aðildarríkja ESB, sé hætta á ferðum. ESB hefur hins vegar ákveðið að reka samninginn áfram óbreyttan fyrst um sinn.
Rúmenía og Búlgaría fengu aðild að Evrópusambandinu um áramótin en ekki hafa náðst samningar um samsvarandi stækkun Evrópska efnahagssvæðisins. Á því svæði eru aðildarríki Evrópusambandsins og EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein.
Fram kom í Morgunblaðinu fyrir áramótin, að í samningaviðræðum hefðu íslensk stjórnvöld lýst sig reiðubúin að greiða meira í sjóði fyrir fátækari ríki ESB ef þau fá á móti greiðari markaðsaðgang fyrir nokkrar tegundir sjávarafurða, einkum humar. Hins vegar hafi strandað á afstöðu Norðmanna, sem eru langt í frá eins örlátir á fé og í samningum um síðustu stækkun Evrópska efnahagssvæðisins þegar tíu ný ríki gengu í Evrópusambandið.