Framkvæmdastjóri Norðlenska hf., sem er eini framleiðandinn sem selur kjöt til verslananna, telur ekki forsendur til að halda útflutningnum áfram og var kominn á þá skoðun löngu áður en hvalveiðar voru leyfðar í atvinnuskyni.
Í haust seldi Norðlenska um 62,1 tonn af unnu lambakjöti í verslunum Whole Foods en það samsvarar um 120 ígildistonnum, þ.e. 120 tonn af skrokkum þurfti til að framleiða kjötið fyrir Whole Foods. Þetta skilaði tæplega 50 milljóna króna tekjum en kostnaðurinn var hins vegar umtalsvert meiri, að sögn Sigmundar Ó. Einarssonar, framkvæmdastjóra Norðlenska. Tekjurnar dugðu raunar ekki fyrir breytilegum kostnaði, þ.e. innkaupsverði, launum o.þ.h. og þá var eftir að reikna fastan kostnað sem er umtalsverður. Í fyrra var velta Norðlenska um þrír milljarðar.
"Þetta er mjög lítill hluti af veltu okkar en það fer því miður mjög mikið púður í þetta," segir Sigmundur. Framleiðslukostnaður sé mikill, Bandaríkjamenn vilji aðeins sérvalið úrvalskjöt og við bætist ýmsar tæknilegar hindranir sem geri útflutning, sérstaklega fyrir litla útflytjendur, afar erfiðan.
Samkvæmt samningi ríkisins við sauðfjárbændur hvílir á bændum útflutningsskylda sem er mismikil eftir árum. Í aðalsláturtíðinni var útflutningsskyldan 10% og var miðað við að útflutningsverð væri 220 krónur á kíló, um 100 krónum lægra en verð fyrir kjöt sem fór á innanlandsmarkað. "Þetta verkefni lifir á útflutningsskyldunni," segir Sigmundur. Væri skilaverð til bænda vegna útflutnings til Bandaríkjanna hið sama og á innanlandsmarkað væri tapið enn meira. Þá hefði raunar einnig verið tap á útflutningnum árið 2004. Hvort kveðið verði á um útflutningsskyldu í næsta sauðfjársamningi, sem tekur væntanlega gildi á næsta ári, eigi eftir að koma að í ljós.
Útflutningsskylda Norðlenska í haust var um 180 tonn en útflutningur fyrirtækisins var hins vegar 350 tonn. Kjötið sem fór til Bandaríkjanna hefði mátt selja fyrir betra verð annars staðar, t.d. hér á landi.
Sigmundur bendir á að Norðlenska hafi greint frá því sl. vor að fyrirtækið hefði miklar efasemdir um forsendur fyrir útflutningnum til Bandaríkjanna og talið að ekki væri hægt að leggja það á eitt fyrirtæki að halda við markaði þar ef það væri fyrirséð að áfram yrði tap á þeim viðskiptum. "Við höfðum áhuga á að hætta í fyrra en við sögðum líka að við vildum ekki eyðileggja verkefnið," segir Sigmundur. Þar sem enginn hefði viljað eða getað tekið við útflutningnum til Whole Foods hefði Norðlenska ákveðið að bíta á jaxlinn og halda viðskiptunum áfram í eitt ár til viðbótar. "Við viljum ekki halda áfram, við sjáum ekki tækifærin. Okkur finnst fullreynt."