Skrifað var undir vaxtarsamning Austurlands laust eftir hádegi í dag á Hótel Héraði á Egilsstöðum. Að samningnum koma 55 aðilar, iðnaðarráðuneytið, öll sveitarfélög á Austurlandi, fyrirtæki, stofnanir og háskólar af öllu landinu. Samningurinn hljóðar upp á framlag sem nemur rúmlega 190 milljónum á þremur árum, 2007-2009.
Um er að ræða stærsta samning sinnar tegundar á landinu hingað til og hann er jafnframt sá vaxtarsamningur sem hvað víðtækust þátttaka er í. Með honum er tilkominn öflugur vettvangur fyrir uppbyggingar- og þróunarstarf á Austurlandi. Í samningnum eru skilgreind 4 vaxtarsviða sem eru menning og ferðaþjónusta, matvælaframleiðsla, menntun og rannsóknir, iðnaður, tækni og verktakastarfsemi.
Viðstaddir undirritun samningsins voru Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra, auk samningsaðila og gesta.