Andri Snær Magnason rithöfundur og félagið Andríki, sem m.a. heldur úti Vefþjóðviljanum, hlutu síðdegis í dag frelsisverðlaun Sambands ungra sjálfstæðismanna, er nefnast Frelsisskjöldur Kjartans Gunnarssonar. Er þetta í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt, en þau á að veita árlega einstaklingum eða samtökum sem að mati forystu SUS hafa unnið frelsishugsjóninni gagn.
Um val á verðlaunahöfunum segir SUS:
„Félagsskapurinn Andríki hefur um tíu ára skeið haldið uppi öflugri útgáfu þar sem frjálshyggjuhugsjónin er í hávegum höfð. Fullyrða má að frelsi einstaklingsins og hugmyndin um lágmarksríkisafskipti hafi átt fáa öflugri málsvara í íslensku samfélagi á þessu tímabili.
Andri Snær Magnason gaf á nýliðnu ári út bókina Draumalandið þar sem hann beitir hugmyndafræði frjálshyggjunnar í þágu umhverfisverndar. Rökstuðningur og málflutningur Andra Snæs undirstrikar að frumkvæði einstaklingsins er forsenda framfara en ríkisafskipti til óheilla í þessum málaflokki eins og öðrum. Að mati forystu ungra sjálfstæðismanna eru skrif Andra Snæs vitnisburður um að frjálshyggjan og hugsjónin um frelsi einstaklingsins á fullt erindi á öllum þjóðmálasviðum. Þannig mætti tala um útrás frjálshyggjunnar.“
Í tilkynningu frá sambandinu segir ennfremur:
„Stjórn SUS ákvað að nefna verðlaunin eftir Kjartani Gunnarssyni, fráfarandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, til að heiðra það mikla starf sem hann hefur skilað til þess að auka frelsi á Íslandi og bera út hugmyndir frjálshyggjunnar. Starf Kjartans í þágu frelsisins er langt í frá einskorðað við stöðu hans sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins í 26 ár. Frá unga aldri hefur hann verið í forystu meðal þeirra sem barist hafa fyrir frjálshyggjunni á Íslandi. Hann var meðal annars helsti hvatamaður og leiðtogi í þeim hópi sem gaf út ritið "Uppreisn frjálshyggjunnar" en í henni má finna stefnu þeirrar kynslóðar sjálfstæðismanna sem hvað mest áhrif hefur haft á þróun landsmála á undanförnum áratugum.“