Bandaríkjamenn hætta við aðstoð við endurskoðun á flokkun langreyðar

Langreyður í hvalstöðinni í Hvalfirði
Langreyður í hvalstöðinni í Hvalfirði RAX

Bandaríkjamenn hafa dregið til baka tilboð sitt um að aðstoða íslensk stjórnvöld við endurskoðun á flokkun langreyðar innan CITES, samnings um alþjóðaverslun með tegundir í útrýmingarhættu. Í tilkynningu frá ráðuneyti Bandaríkjanna, sem fer með náttúru- og auðlindamál, er tekið fram að ákvörðunin hafi verið tekin vegna hvalveiða Íslendinga. Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri hjá sjávarútvegsráðuneytinu, segist ekki sjá að ákvörðun Bandaríkjamanna hafi áhrif á það ferli sem hafið er.

„Þessi úttekt á réttmæti skráningar langreyðar innan CITES er eitthvað sem ákveðið var síðasta haust, vinnan er á frumstigi og ég sé ekki endilega að aðkoma Bandaríkjamanna muni hafa nein úrslitaáhrif á hana”, segir Stefán.

Stefán segir ferlið þannig að ákveðið sé innan CITES hvaða tegundir skuli teknar upp í reglubundið endurskoðunarkerfi. Það er ekki skrifstofa CITES sem slík sem vinnur endurskoðunina heldur aðildarríki. Til stóð að Íslendingar myndu sjálfir sjá um nauðsynlega grunnvinnu, síðan segir Stefán að hafi komið í ljós að ýmis ríki hafi verið tilbúin að taka þátt í þeirri vinnu. M.a. hafi ákveðin grunnvinna verið unnin í samstarfi við önnur NAMMCO ríki. Því segir Stefán að ákvörðun Bandaríkjamanna hafi í raun engin áhrif á það hvort þessi vinna verður unnin eða ekki.

Vinna að úttektinni hófst síðasta haust, og er á frumstigi að sögn Stefáns, næsta ríkjaráðstefna CITES verður haldin næsta sumar, en stefnt er að því að undirbúningi verði lokið fyrir ráðstefnuna þar á eftir, sem líklega verður haldin eftir 2-3 ár.

Stefán segir endurskoðun á flokkun langreyðar þýðingarmikla einfaldlega vegna þess að mikilvægt sé að þær tegundir sem ekki séu réttilega á lista CITES séu teknar af honum. Óumdeilt sé að staða langreyðar í N-Atlantshafi sé ekki slæm.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert